Ég ætla aftur heim

Ég kann ekki alveg við mig hér á morgunblaðsbloggsvæðinu svo ég ætla bara að fara aftur heim til mín á:

 www.maggabest.blogspot.com

Allir velkomnir og sjálfsagt að hlekkja á mig. Ég mun sannarlega taka nokkra moggabloggshlekki með mér yfir.

Ást og friður

Margrét Hugrún

P.s 

"Þú ert bara ekki mín týpa" 

 



Tilfinningaklámveran ég

jerry_springe

Tilfinningaklám er einstaklega skemmtilegt orð og enn betra fyrirbæri í sinni fjölbreyttu mynd.

Stundum hef ég lent í því að vera tilfinningaklámvera. Ekki þannig að  ég sé endalaust tilfinningalega klámfengin, heldur með því að njóta þess að horfa upp á annara manna tilfinningaklám (eflaust hefur það samt gerst að ég hafi sjálf klæmst tilfinningalega... vonandi bara sjaldan.)

Mér þóttu t.d. Jerry Springer stundum ótrúlega skemmtilegir þættir, svo ekki sé minnst á Ricky Lake. Þar var tilfinningaklámið í hávegum haft og yfirleitt meirihlutinn sviðsettur til að klámið næði nú góðum klímax.

Alvöru, íslenskt tilfinningaklám finnst mér hinsvegar frekar mikið ógeð. Sérstaklega þegar það gerist á stórum skala. Þegar heil þjóð sveiflast eins og loðnutorfa í tilfinningaklámvalsi. Það er eiginlega bara hálf hræðilegt. Þegar slíkt gerist er ástæða fyrir fólk að óttast. Heilaþvegin þjóð í tilfinningalegu uppnámi getur ekki tekið skynsamlegar ákvarðanir. Það hefur nú margoft sýnt sig og sannað. 

Annars er ég bara rosa hress. Var á Barnum áðan að borða góðan mat, hitti Nonna tattú sem er alltaf jafn mikið ljúfmenni, drakk kaffi með Óla Hirti og fékk að heyra rómantíska sögu. Sneri svo til baka til vinnu á vínrauðum Bjúikk með gráum leðursætum. Það er bara töff.


Rétta leiðin

Mér hefur alltaf þótt þetta mjög svo skynsamlegur kostur. Að par hafi sitthvort herbergið. Þetta tíðkaðist meðal efnafólks fyrr á öldum. Þá sváfu maður og kona alltaf í sitthvoru herberginu og áttu síðan gæðastundir þess á milli. Hjónarúm var merki um fátækt. Fólk hafði ekki efni á stærra húsi og varð því að sofa í sama rúmi í einu herbergi.

Ákveðin fjarlægð held ég líka að hljóti að vera holl fyrir flest sambönd. Það er aldrei hægt að komast nema x-langt að öðru fólki og nándin verður ekki endilega til af því að fólk sefur í sama rúmi. Og fjarlægð og kurteisi þurfa alls ekki að vera merki um að fólk sé ekki náið...

Persónulega sef ég best þegar ég er ein í rúminu mínu. Hrotur og soghljóð fara óbærilega í taugarnar á mér og halda fyrir mér vöku. Mig langar í stórt hús og kurteisan mann í sérherbergi takk. 

Reyndar minnir þetta tal mig á myndina sem ég sá í gær. Hún heitir The painted veil og er gerð eftir samnefndri skáldsögu snillingsins Somerset Maugham. Alveg hreint frábær mynd um hjón sem eiga hvort sitt herbergið. Mæli með henni. Hún kemur bráðlega í bíffann.


mbl.is Fleiri pör sofa í sitthvoru herberginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttablaðspistillinn

Fyrir alla aðdáendur mína sem fengu ekki Fréttablaðið í dag: 
 
Stuð milli stríða Rússneskar leikhús-rúllettur – BANG!
 
 
Yfirleitt hef ég forðast að fara í leikhús og ástæðan fyrir því ekki mjög flókin. Mér leiðist og verður illt í rassinum. Geispa og fer að skoða GSM-símann.

Yfirleitt hef ég forðast að fara í leikhús og ástæðan fyrir því ekki mjög flókin. Mér leiðist og verður illt í rassinum. Geispa og fer að skoða GSM-símann. Bíð eftir því að Henríetta, Lautinant Brian og aðmíráll Nigel ljúki sér af, tjaldið falli og fólk byrji að klappa eins og sirkús-selir, leikararnir hneigja sig, fólk klappar meira, lófarnir verða rauðir, klappað aðeins meira og síðan er kveikt.

Svo leiðinlegt þykir mér þetta að ég hef meira að segja fengið martraðir sem ganga út á að ég sit í súrefnisskorti og bíð þess að áhugaleikhópur klári að sýna Söngvaseið, en svo þegar allt á að vera búið þá er mér tilkynnt að nú muni þau flytja verkið AFTUR af því það var klappað svo mikið.

Töluvert erfiðara hefur mér þó fundist að horfa á nútímadans, en slík fyrirbæri eru svolítið eins að fara í rússneska rúllettu.

Innantóm klikk og ekkert gerist fyrr en allt í einu BANG og heilinn tekur endorfínhlaðinn gleðikipp.

Með öðrum orðum, 9 af 10 nútímadansverkum finnast mér ömurlega púkó og leiðinleg, en svo kemur eitt sem er hrein og tær snilld og gerir það að verkum að maður tekur áhættuna aftur og jafnvel aftur.

Fyrir viku síðan upplifði ég þessa tilfinningu í Þjóðleikhúsinu þegar ég fór á forsýningu á söngleiknum Leg. BANG! Ég hló og skríkti allan tímann, hallaði mér fram í sætinu, fékk sjokk (sem er svo skemmtilegt) og gladdist innilega í mínu litla, hömlulausa hjarta. Óhikað get ég fullyrt að Leg er skemmti-leg-asta leikrit sem ég hef séð. En sökum reynsluleysis er ég náttúrlega enginn leiklistargagnrýnandi svo ég get bara haft þetta einfalt og segi; Ef öll leikrit væru eins og Leg þá færi ég miklu oftar í leikhús.

Ég gekk út úr Þjóðleikhúsinu, miklu hressari en þegar ég gekk inn og var skyndilega orðin þakklát fyrir að fá að búa á nútíma Íslandi þar sem sjálft ríkið tekur sénsa á því að bregða frá hefðbundnum leiðindum (9 af 10) með því að leyfa verk eins og Leg á sínum fjölum. Áfram það!


Ég er frímúrari

Allir sem setjast upp í Skodann minn taka eftir því að ég er búin að líma yfirvaraskegg í mælaborðið. Fáir hafa þó áttað sig á því til hvers það er... 

Leyndardómurinn á bak við skeggið er nefninlega sá að ef ég er stoppuð af löggunni, fyrir of hraðan akstur eða gáleysi í umferð, þá bregst ég við með því að líma á mig skeggið, búa til undirhöku, dýpka róminn og segja „Ég er frímúari“. Og þetta virkar alltaf, undantekningarlaust og í hvert einasta sinn.

Þeir segja afsakið, taka af sér hattinn og leyfa mér að fara. 

Svona er ég lúmsk. 


Snilldar færsla

Hjá honum Kristjáni B hérna... loksins eitthvað sem gengur alveg upp....


Er ég eitthvað skrítin?

Í gær fór ég á Ölstofuna og hitti tvo kollega sem sögðust  lesa það sem ég skrifa hérna  og pistlana í Fréttablaðinu. Örn á Viðskiptablaðinu sagði að ég væri "klikkuð" og það sagði Tóti Badabing líka. Tóti kallaði mig reyndar um leið eina feministann með viti á landinu og Erni finnst ég skemmtileg... þannig að þetta var ekki "vont" klikk... en mér þætti samt gaman að vita hvað það er sem gerir mig "klikk". Mér finnst ég einmitt mjög langt frá því að vera klikk... ég er hreint ótrúlega stabíl og á jörðinni, en sumir aðrir...jáááá... sumiirrrr...


Meiri pælingar

Það er eitthvað hálf ógnvekjandi að blogga hérna finnst mér stundum. Þetta er svolítið eins og þegar ég var á póstlista feministafélagsins. Eftir smá tíma fór ég að standa mig að því að gera varla annað en reyna að koma vitinu fyrir þessar stelpur sem voru bara á einhversskonar auto-pilot feminisma sem þær uppgötvuðu ekki í eigin hugsun, heldur eftir að hafa farið í kynjafræði í HÍ. Prógramms feminismi sem þær numu kannski af einhverjum fyrstu eða annarar kynslóðar feministum og þeim kennslubókum sem þessar kennslukonur réttu að þeim. Ákaflega óspennandi fyrirbæri. Ég þekki til dæmis að minnsta kosti tvær stelpur sem eru mjög áberandi í fjölmiðlum að tjá sig um sínar feminisku skoðanir, en báðar hafa þær tekið þátt í fegurðarsamkeppnum og hamast við að vera módel. Eftir að þær keyptu feminiska floppídiskinn sinn í HÍ hafa þær bara afsakað þetta með því að segjast hafa verið ungar og vitlausar. En....alveg frá því ég var ung og vitlaus hafa mér þótt fegurðarsamkeppnir hlægilegar og kjánaleg uppákoma og jafnvel þó að ég hefði verið 175 og með langa skanka þá hefði það ekki hvarflað að mér að taka þátt í slíku bulli. Ég tók hinsvegar þátt í stuttmyndasamkeppni og fékk þrenn verðlaun fyrir myndina Miranda, sem fjallar einmitt um kynfrelsi og eldskírnir. Og aldrei fór ég í HÍ.

Það er líka alþekkt að eitt skemmt epli getur skemmt öll hin. Þannig myndi ég segja að margar þeirra hafi hreinlega skemmt merkingu orðsins "feminismi" líkt og Nasistaflokkurinn skemmdi ímynd svastikunnar með því að nota hana fyrir sig (en eins og margir vita er þetta aldagamalt tákn fyrir árstíðirnar og lífsins gang). Það væri vel þess virði að búa til skoðanakönnun og kanna hvaða merkingu fólk leggur í orðið. Gefa þrjá valkosti:

1. Fólk af báðum kynjum sem vinnur gegn því að konum sé mismunað í samfélaginu.

2. Reiðar konur sem vilja banna klám og fegurðarsamkeppnir (og jafna launamun kynjanna).

3. Fimmtug kona með stóran skartgrip um hálsinn, Harry Potter klippingu og frekar spes gleraugu.

 

Hvað sem öðru líður þá er mikilvægt að vinna að þessum málum. En það væri svo miklu betra ef það væri ekki gert með þessu offorsi, og þessum endalausa fókus á krikaloð og kynlíf... og því að gera konur að körlum... og forræðishyggju... og...og.... 

 

 


Klámfengin fyrirmynd "feminsta"

Þessi kona var poppstjarna og fyrirmynd jafnaldra sinna fyrir um 30 árum. Hún reykti hass, drakk áfengi og sprautaði sig með heróíni. Átti erfiða æsku og notaði líka kynferði sitt í auglýsingaskyni og til að fá athygli eins og sjá má á þessari mynd. Hún var fyrirmynd margra þeirra sem í dag eru á vinstri vængnum og starfa innan menntastofnana. Þær setja hana jafnvel enn á fóninn og gala "Oh lord, won´t you buy me..." ef þannig liggur á þeim.

Eru þær með því að stuðla að klámi? Vinna á móti jafnrétti? Styðja það að konan sé hlutgerð sem kynvera og að ekki sé borin virðing fyrir skoðunum hennar eða talent?

Hvers á Janis að gjalda? 


Súri strumpur ei meir (í bili)

Mér finnst ég hafa verið soldið súri strumpurinn hérna. Það eru allir að skammast og ég fer að skammast líka. Sogast með skammi straumnum. Vendi ég því mínu kvæði í kross.

Fallegt og gott í dag:

Fór í ilmolíu andlitsbað í laugum og talaði dönsku við snyrtikonuna Bibi sem var hreint frábær. Komst að því að andlitsnudd er betra en baknudd.

Fór í gufuna og er öll ótrúlega mjúk núna

Lagði mig í hádeginu

Knúsaði Eddu

Búin að lesa nokkur falleg ljóð (sjá eitt frábært hér að neðan)

Fá skemmtilega tölvupósta frá góðu fólki

Sjá skúbbið mitt á forsíðu Fréttablaðsins í dag

Borða þrælfínt Burrito

Stal óvart símanum hans Gumma tölvukarls svo hann fékk klukkustundar pásu frá síhringjandi síma og leið vel fyrir vikið. Svona getur maður látið gott af sér leiða bara alveg óvart.

Hvernig ætti ég að geta kvartað? Líf mitt er einn sælustraumur nánast. Ég hef það aldeilis stórgott svo ekki sé meira sagt.

Á morgun förum við Emilía að kaupa á okkur spjarir í Smáralind og svo ætlum við að dansa á straight friendly hommabarnum hans Óla Hjartar um kvöldið. Það verður væntanlega hressandi og skemmtilegt. Við erum blissful, bourgeois og undursamlega ofdekraðar litlar blaðakonur á eyju milli Grænlands og Færeyja. Það er ekki annað hægt en að kætast yfir þessu. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband