13.3.2007 | 14:10
Tilfinningaklámveran ég
Tilfinningaklám er einstaklega skemmtilegt orð og enn betra fyrirbæri í sinni fjölbreyttu mynd.
Stundum hef ég lent í því að vera tilfinningaklámvera. Ekki þannig að ég sé endalaust tilfinningalega klámfengin, heldur með því að njóta þess að horfa upp á annara manna tilfinningaklám (eflaust hefur það samt gerst að ég hafi sjálf klæmst tilfinningalega... vonandi bara sjaldan.)
Mér þóttu t.d. Jerry Springer stundum ótrúlega skemmtilegir þættir, svo ekki sé minnst á Ricky Lake. Þar var tilfinningaklámið í hávegum haft og yfirleitt meirihlutinn sviðsettur til að klámið næði nú góðum klímax.
Alvöru, íslenskt tilfinningaklám finnst mér hinsvegar frekar mikið ógeð. Sérstaklega þegar það gerist á stórum skala. Þegar heil þjóð sveiflast eins og loðnutorfa í tilfinningaklámvalsi. Það er eiginlega bara hálf hræðilegt. Þegar slíkt gerist er ástæða fyrir fólk að óttast. Heilaþvegin þjóð í tilfinningalegu uppnámi getur ekki tekið skynsamlegar ákvarðanir. Það hefur nú margoft sýnt sig og sannað.
Annars er ég bara rosa hress. Var á Barnum áðan að borða góðan mat, hitti Nonna tattú sem er alltaf jafn mikið ljúfmenni, drakk kaffi með Óla Hirti og fékk að heyra rómantíska sögu. Sneri svo til baka til vinnu á vínrauðum Bjúikk með gráum leðursætum. Það er bara töff.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.