Du har meget god smag

Einu sinni átti ég heima í Kaupmannahöfn. Þetta var á þeim árum sem fólki fannst smart að ganga í  böffalóskóm og fara á reiv en ég gerði hvorugt þó ég hafi ekki lifað mjög hefðbundnu lífi. Ég stundaði óhefðbundið nám í listtengdum fögum og fjölmiðlun og var eflaust einhverskonar útgáfa af bóhem, þó að bóhem sé náttúrlega þessi listræna og villta sem lifir á framfærslu foreldra sinna. Ég lifði ekki á ríkum foreldrum (því miður) heldur hinu og þessu... aðallega hinu og það var af skornum skammti. Eitt af því sem var ekki ofarlega á forgangslistanum hjá mér var að borða. Ég nennti lítið að hafa fyrir því að borða og það var ekki af því ég var með neina átröskun heldur bara vegna þess að ég nennti þessu ekki... og svo kostaði það peninga. Það sem ég át einna helst var stórgott fyrirbæri frá austurlöndum nær sem kallast Falafel. Þetta eru bollur úr kjúklingabaunum, bornar fram í pítubrauði með einhverri sósu og grænmeti ásamt vel sýrðri gúrku. Ljómandi gott. Svo át ég stundum franskar með þessu. Falafel búllur eru um alla borgina og eitt falafel kostaði kannski 20 kall danskar sem er álíka mikið og pylsa, nema bara 100% hollara.

Ég held að ég hafi sjaldan verið í jafn fitt og slank og á þeim árum sem ég át falafel og franskar í öll mál enda átti ég jú heima í Köben. Þar hjóla allir út um allt og það gerði ég líka. Í köben eru flestir mjóir og með stinna rassa út af hjólreiðum og svo til að bæta á dýrðina eru þeir orðnir ein smartasta þjóð evrópu. Það voru þeir reyndar ekki þegar ég bjó þarna... jú, mjóir, en ekki smart. Það samræmdist ekki jenteloven að vilja vera smart... en núna er eins og þessar elskur vilji standa undir nafni sem smekkfólk.... að fara til Köben í dag getur verið eins og að fara á eina allsherjar smekk-hátíð. Það er allt vaðandi í góðum smekk, hvert sem maður lítur. Hvort sem farið er á bari, veitingahús, í verslanir eða mannlífsskoðunarferðir. Í Köben er ótrúlega mart smart...

Eitt af því fallegasta sem hægt er að segja við danska konu af gerðinni "Bourgeois" er að benda á að hún hafi „god smag“. Þannig konur voru samt ekki komar yfir í mínar kreðsur á þessum árum. Þær voru í Gentofte að bera fram heimabakað spelthrökkbrauð með kotasælu og pestóhræru í skál frá Marimekko. Ég og mínir vorum hvorki að hugsa um smekk, kotasælu né pestó. Við vorum á Stengade 30, filmverskstæðinu eða að hjóla og syngja einhversstaðar á milli Nörre og Vesterbro. Það var gaman þá og það er reyndar líka ferlega gaman núna.

Um helgina fer ég í leikhús að sjá leikrit eftir hinn fallega að innan Hugleik Dagsson og um næstu helgi keyri ég splúnku, splúnku, splúnkunýjan Porsche cayenne. Allt saman alveg dásamlega "Bourgeois" og gleðilegt.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband